Látið fólkið halda að það stjórni og þá er hægt að stjórna því

 

Ég var mætt á stoppustöðina kl. 14:30 og sá þá að vagninn sem fer í efra breiðholt var ný farinn og kæmi næst 14:55. Ég ferðast nú sjaldan með strætó því strætókerfið er ekki að ganga upp fyrir mig þannig að ég komist á milli staða í Borginni eða til vinnu. Þetta blessaða strætókerfi virðist nú eingöngu vera til kerfisins vegna og vinna fyrir þá sem hafa áhuga á að keyra þessa bíla, þess vegna á ég bíl sjálf því það er ekki hægt að ferðast með strætó nema bara ef maður er ekkert bundinn yfir neinu og er bara að slæpast og skoða sig um nota góða veðrið. Það er einmitt það sem ég hef stundum gert í sumar en ég bý í efra breiðholti og geng stundum niður í bæ og eitthvað um Borgina og ætla svo að taka strætó til baka sem því miður er ekki alltaf svo auðvelt.

Þann 1 ágúst 2007  var sem sagt enn einn góðviðrisdagurinn á þessu sumri og ég skellti mér í göngu um Borgina og endaði á Grensás stoppustöðunni eins og hún kallast og ætlaði að taka leið 17 upp í Breiðholt og sá þá eins og fyrr segir að vagninn var ný farinn. Sú hugsun sló niður í kolli mínu að ganga til baka en mundi þá að ég hafði ákveðið að taka strætó til baka því ég var orðin sár undir fótunum og dauðsá eftir að hafa ekki valið mér betri skó í gönguna því ég mundi vera jafnfljót að ganga til baka og að bíða eftir vagninum og tímann sem það tæki hann að keyra (það sem raunverulega gerðist). Þá allt í einu mundi ég... já... það mátti fara með kaffi, Blaðið og fartölvu í strætó. Vá ég hafði nógan tíma til að fara og kaupa mér kaffi, Blaðið og fartölvu áður en næsti vagn kæmi sem færi í breiðholtið. Allt gekk upp og nú var ég klár í vagninn (það sem gæti hafa gerst). Jæja eitthvað gult sá ég nálgast og jú það var strætó en það var leið 2 og næst kom leið 15 og fast á eftir leið 17 en leið 15 stoppaði við strætóskýlið og gekk ég því aftur fyrir leið 15 til móts við leið 17 en þá sé það að bílstjórinn er sko ekkert á leiðinni að stoppa og er að renna sér við hlið leið 15 til að keyra framhjá en ég veifa og veifa til að gera vart við mig og var næstum búinn að missa Blaðið og ég hleyp til baka fram fyrir leið 15 og veifa og stoppaði leið 17 loksins við ljósin. Vagnstjórinn hleypti mér nú upp í og spurði ég hann hvað þetta ætti að þýða, hvers vegna hann hefði ekki stoppað? Vagnstjórinn var bara með stæla við mig og sagði að ég ætti að ganga áleiðis að vagninum þegar það væru fleiri vagnar á stoppustöðinni og ég sagði við hann að það hefði einmitt verið það sem ég gerði en hann hefði bara keyrt framhjá og hann þrætti við mig um að ég hefði ekki gert það og var bara dónalegur. Þessi sami bílstjóri á leið 17 var einnig næstum búinn að keyra fram hjá farþega á Sogaveginum sem var alveg augljóst að var að bíða eftir vagninum og sást vel en þetta var barnshafandi kona í rauðum stuttermabol en hann ætlaði að keyra framhjá og hægði ekki á sér fyrir konan veifaði og þurfti að hlaupa smá spotta til að ná vagninum sem náði ekki að stoppa fyrr en aðeins frá stoppustöðinni. Ég hef líka verið í strætó þar sem vagnstjórar eru að tala í gsm síma og einnig að senda sms skilaboð og leggja þar með farþega í hættu þar sem þeir eru að stýra með annarri hendi og stundum hvorugri. Ég hef líka ætlað að fara með vagni þar sem ég ætlaði að spyrja vagnstjórann hvert vagninn færi og hvort ég gæti farið með honum á ákveðinn stað en nei vagnstjórinn talaði ekki íslensku og ekki ensku og yppti bara öxlum. Ég spyr mig bara, hvernig er þetta dagsdaglega að ég sem fer sjaldan með strætó skuli lenda í þessu sem ég er að lýsa. Það þarf nú aldeilis að fara að taka til í starfsmannamálum þessarar stéttar fyrir utan það að laga kerfið að þörfum þeirra sem það á að þjónusta (það sem raunverulega gerðist).

Ég hugsaði með mér.... heyrðu kona hvaða æsingur er þetta í þér, þú situr hér með kaffið þitt, lest Blaðið og ert með fartölvuna sem ég reyndar næ ekki að nettengja því sjálfsagt þarf eitthvað að slípa til þessar tengingar í vögnunum og þeir eru nú alltaf að segjast vera að vinna í þessu og vonandi að fyrirtækið sem sér um nettenginguna verði ekki gjaldþrota áður en samband kemst á. Þá fattaði ég það allt í einu að á meðan ég og sjálfsagt aðrir sem ferðast með strætó hafa lifað í voninni um góða nettengingu hafa leitt hugann tímabundið frá slæmu leiðarkerfi. Ég vakna úr þessum hugsunum mínum þegar strætó hemlar snögglega og...úpss heyrðist um leið og manneskjan fyrir aftan mig hellti yfir mig sjóðheitu kaffi og ég náði ekki að forða fartölvunni minni sem var útötuð í sykruðu kaffi. Vá þá sá ég að þetta var stoppustöðin mín og ég kallaði til vagnstjórans og bað hann um að bíða á meðan ég væri að slökkva á tölvunni og taka saman dótið mitt en hann sinnti því ekki og sagðist þurfa að halda áætlun (það sem gæti hafa gerst).

Ég er alltaf jafn hissa þegar ekki á að bæta úr "fáfarnari leiðum" eins og Gísli Marteinn tekur fram í fréttinni. Hefur hann eða aðrir skipuleggjendur leiðakerfisins sem ekki nota strætó að staðaldri aldrei hugsað að þessar svokölluðu "fáförnu leiðir" eru fáfarnar af þeirri einföldu ástæðu að þær eru ekki að nýtast þeim sem mundu annars nota þær ef þær væru betur skipulagðar og lagaðar að þörfum þeirra sem þurfa að nota þær.

 


mbl.is Með blaðið og kaffibollann í strætó í haust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband